Skólareglur

Almennar skólareglur Laugalandsskóla

 1. Verum kurteis og tillitssöm hvert við annað.
 2. Virðum eigur annarra og bætum það sem skemmist af okkar völdum.
 3. Neysla tóbaks, víns eða annarra vímuefna er stranglega bönnuð í skólanum eða á vettvangi skólans.
 4. Nemandi skal ávallt koma vel undirbúinn í skólann; hafa lokið heimanámi, vera úthvíldur og með þær námsbækur, ritföng og annan útbúnað sem nota skal þann daginn.
 5. Allur óþarfa hávaði og truflun eru bönnuð meðan á kennslu stendur.
 6. Nemendum ber að mæta stundvíslega í kennslustundir.
 7. Nemendur fari úr yfirhöfnum og skóm, yfirhafnirnar hengdar upp og skóm raðað. Íþróttatöskur skulu geymdar á stöðum sem til þess eru ætlaðir.
 8. Hlaup og meðferð bolta er ekki leyfileg innan veggja skólans (nema í íþróttasal).
 9. Nemendum í 1. – 4. bekk er skylt að fara út í allar frímínútur. Þá er öllum nemendum skylt að fara út í löngu frímínútunum eftir hádegi nema skrifleg tilkynning hafi borist til skólans frá foreldri/ forráðamanni um veikindi.
 10. Nemendur fara í röð eftir ákveðnu skipulagi áður en hleypt er inn í matsal.
 11. Einungis er heimilt að nota farsíma/tónhlöðu í sameiginlegum hljómflutningsgræjum skólans í frímínútum. Að öðrum kosti skal vera slökkt á tækjunum á skólatíma nema að sérstakt leyfi hafi verið gefið til annars.
 12. Óheimilt er að koma með gosdrykki, nasl, tyggjó og sælgæti í skólann.

Reglurnar tólf eru grundvallarreglur sem öll okkar samskipti eiga að byggjast á. Með tilvísun í þær förum við fram á stundvísi, tillitssemi og snyrtimennsku.

Vandamál vegna hegðunar nemenda eru leyst í samvinnu við nemendur og forráðmenn þeirra. Ef ekki reynist unnt að leysa vandamál innan skólans er leitað annarra leiða í samvinnu við Skólaskrifstofu Suðurlands. Með agabrot er farið samkvæmt vinnureglum skólans og reglugerð um agabrot og skólareglur sem Menntamálaráðuneytið hefur sett.

Meðferð agamála í Laugalandsskóla og almenn viðurlög við brotum á skólareglum

1. gr.
Kennurum og almennum starfsmönnum ber að tilkynna umsjónarkennara um aga- og hegðunarfrávik nemenda.

2. gr.
Ef nemandi veldur truflun í kennslustund og lætur ekki segjast við áminningu kennara er heimilt að vísa honum úr tíma og skal hann bíða þar til viðkomandi kennari getur unnið með brottvísun hans. Sá kennari sem vísar nemanda úr tíma skal ávallt hafa samband við umsjónarkennara og forráðamenn nemandans og skrá atvikið og meðferð málsins. Einnig er nemendum óheimilt að nota farsíma á skólatíma.

3. gr.
Umsjónarkennari kynnir sér mál, sem vísað er til hans, með því að ræða við nemandann og þá sem tengjast málinu og hefur ávallt samband við forráðamenn. Málavextir eru skráðir niður í dagbók.

4. gr.
Í alvarlegum málum er rétt að kynna málavexti fyrir skólastjórnendum, sem taka þá málin til umfjöllunar. Æskilegt er að sem flest mál leysist á þessu stigi.

5. gr.
Ef mál einhvers nemanda þróast þannig að kennarar, forráðamenn og stjórnendur í Laugalandsskóla finna ekki leið til úrbóta vegna agabrota hans getur þurft að vísa málinu til skólanefndar og/eða barnaverndarnefndar sýslunnar.

6. gr.
Starfsmönnum skóla er óheimilt að neyta aflsmunar nema nauðsyn krefji til að stöðva ofbeldi eða koma í veg fyrir að nemandi valdi sjálfum sér eða öðrum skaða eða eignatjóni. Í tilvikum sem þessum skal ávallt greina foreldrum/ forráðamönnum tafarlaust frá málavöxtum.

7. gr.
Nemendur eru ábyrgir fyrir tjóni sem þeir kunna að valda á eignum skólans, eignum starfsfólks og/eða skólafélaga. Týni nemandi eða skemmi námsefni og búnað sem skólinn hefur útvegað, skal nemandinn/forráðamenn bæta tjónið.

8. gr.
Ef mál vegna brota á skólareglum hafa gengið svo langt að þeim hafi verið vísað til skólastjórnenda getur það leitt til þess að viðkomandi nemanda verði meinuð þátttaka í nemendaferðum og almennu félagsstarfi skólans.

9. gr.
Ef nemandi gerist sekur um alvarleg brot á skólareglum og/eða almennum lögum í ferðum á vegum skólans verður hann sendur heim á kostnað forráðamanna.

10. gr.
Ef nemandi gerist sekur um alvarleg eða endurtekin brot á skólareglum er heimilt að vísa honum tímabundið úr skóla á meðan reynt er að finna lausn á máli hans. Sé nemanda vikið úr skóla um stundarsakir skal skólastjóri þegar tilkynna foreldrum/forráðamönnum og fræðsluyfirvöldum þá ákvörðun.

Heimilar fjarvistir
Foreldrar/forráðamenn eru beðnir að tilkynna um veikindi barna sinna sem fyrst. Leyfi úr skólanum heila eða hálfa daga geta aðeins skólastjóri eða umsjónarkennari veitt, en úr einstökum tímum viðkomandi kennarar. Foreldrar/forráðamenn eru beðnir að taka tillit til undirbúnings nemenda fyrir aðalskemmtanir skólans, s.s. æfingar fyrir skólaleikrit o.þ.h.

Ef veður og færð eru varhugaverð taka foreldrar/forráðamenn ákvörðun um hvort þeir senda börnin í skólann, þótt skólabíllinn aki, því ábyrgðin er í höndum þeirra. Slík forföll ber að tilkynna eins og önnur forföll.

Nesti

Nemendur eiga að hafa með sér hollt og gott nesti í skólann. Gos og sælgæti er ekki leyft.

css.php