Fréttir

6. – 7. bekkur vikuna 4. -8. febrúar

Pistill vikunnar 4. – 8. febrúar

Mánudagurinn byrjaði með látum þegar við fórum í Bláfjöll á skíði. Eftirvæntingin var mikil og allir voru tilbúnir fyrir ferðina. Því miður var vont veður og aðeins tvær brekkur opnar en það var gaman að fara og prófa bretti eða skíði.

Á þriðjudeginum byrjuðum við á stærðfræðiverkefni sem felst í því að hanna hús og búa þau til. Við þurfum líka að reikna út hlutföll og flatarmál. Það er mjög skemmtilegt að gera þetta og fá frí frá kennslubókunum í eina viku á meðan.  Í samfélagsfræði erum við að fræðast um miðaldir og erum að búa til miðaldarþorp.

Miðvikudaginn fóru svo flestir nemendur á Hvolsvöll á glímumót. Þetta var grunnskólamót Suðurlands í glímu og gekk okkur mjög vel. Við fengum þrjá stigabikara og í okkar bekkjum unnu bæði Telma og Smári í 7. bekk og Sigurlín sigraði í 6.bekk. Jana lenti í öðru sæti og aðrir lögðu sitt af mörkum til stigabikarsins.

Á fimmtudaginn gerðum við flatbökusnúða í matreiðslu sem voru mjög bragðgóðir. Í íþróttum fórum við í skemmtilega leiki og meðal annars fór 6. bekkur í skemmtilega útfærslu af litbolta þar sem boltar voru notaðir til að slá keppendur úr leik. Í stærðfræðinni fóru húsin að myndast og sumir hópar farnir að hanna innanstokksmuni. Í íslensku erum við að læra um lýsingarorð og stigbreytingu þeirra.  Í dönsku vorum við að læra um dýraheiti.

Á föstudeginum tók á móti okkur snjókoma og það var gaman í frímínútum. Við unnum svo í tölvum með Ástu þar sem við skrifuðum um uppáhaldsleikinn okkar og í dönsku fórum við í skemmtilegan látbragðsleik. Í íslensku kláruðum við söguna um Sigurð Fáfnisbana og ævi hans. Þessi saga er snúin og augljóst að höfundur hennar er með mjög fjörugt ímyndunarafl!

 

6. -7. bekkur.

 

 

css.php