Fréttir

8. og 9. bekkur 21. – 25. janúar

Vikupistill 21.-25. janúar

Við mættum öll hress og kát í skólann að venju á mánudegi. Og byrjuðum vikuna á því að lesa Kjalnesingasögu og tala um það hvernig Fríður og Búi (sem sum ykkar þekkja) skemmtu sér saman á meðan Búi dvaldist vetrarlangt hjá Dofra konungi, pabba Fríðar. Þau spiluðu hvorki bridds né félagsvist eins og við „héldum“ heldur stunduðu þau rúmleikifimi – sagði Stefán – því að í ljós kom að Fríður gekk með barn þeirra Búa. Í íþróttum var bandívika og smá þrekæfingar inn á milli. Hjá 9. og 10. bekk var slegið met í því að eyðileggja bandíbolta þar sem stigið var á þá flesta. Í enskunni eru 8. og 9. bekkur að gera samvinnuverkefni út frá köflunum í kennslubókinni. 8. bekkur er í kafla sem snýst um tísku og útlit en 9. bekkur er í kafla sem fjallar um Nýju Jórvík (eða New York City).

Á þriðjudaginn kláruðum við Kjalnesingasögu í íslenskutímanum. Síðan tók við stærðfræði og var 9. bekkur að vinna með algebru og 8. bekkur með jöfnur. Síðustu tímarnir voru valtímar og þá fóru allir í sitt valfag.

Á miðvikudaginn byrjuðum við á því að fara út með Guðna í náttúrufræði og horfðum til himins í von um að sjá nokkrar stjörnur en stjörnuskoðun er viðfangsefnið í náttúrufræði hjá Guðna. Því miður sást mjög lítið til stjarnanna en Guðni var búinn að lofa okkur að fara aftur þegar skyggnið væri betra. Eftir hádegi voru svo valtímar. Í söngvalinu var undirbúningur fyrir ræðu-, söngvara- og spurningakeppnina sem er framundan og gekk það að öllu leyti vel.

Á fimmtudaginn fór 8. bekkur í tvöfaldan íþróttatíma og byrjaði Guðni á upphitun og svo þrekæfingum þangað til hann var að verða brjálaður á strákunum. En svo fórum við í bandí. Þennan dag fengum við fyrripartana sem við áttum að botna í hinni árlegu vísubotnakeppni á þorranum. Í þetta eyddum við flestum tímunum hjá Stefáni þann daginn.

Á föstudaginn var svo þorramaturinn og bóndadagurinn. Þá fengum við að vita hver var með besta og skondasta vísubotninn en Anna Guðrún Þórðardóttir vann þorraþrælinn í fyrra. Þeir sem unnu í ár voru:

1-4. b. – Olgeir Otri Engilbertsson

5-7. b. – Dagný Rós Stefánsdóttir

8-10. b. – Vilborg María Ísleifsdóttir

Skondnasti vísubotninn – Guðbjörg Viðja Antonsdóttir

Besti vísubotninn og vinningshafi Þorraþrælsins – Sigurður Smári Davíðsson

Höf.: Halla Rún 8. b. og Sigurður Smári 9. b.

css.php