Fréttir

8. og 9. bekkur 3.-7. desember

Vikupistill 3.-7. desember

Þessa vikuna var mikið um undirbúning, bæði fyrir litlu jólin sem og fyrir prófin.

Á mánudagsmorgunn byrjaði Stefán á því að afhenda okkur gátlista fyrir íslenskuprófið og byrjuðum við því næst að undirbúa okkur fyrir próf. Við fengum mikið frelsi við prófundirbúning og mátti því læra undir enskupróf þótt að stundataflan sýndi að það væri íslenskutími. Í dönskutíma bjó níundi bekkur til svokallaða „julenisse“ meðan áttundi bekkur tók fyrsta próf vikunnar, hið sívinsæla „peep test“ þar sem reynt er á þol nemenda. Í lok dagsins snerist þetta við því að þá er áttundi bekkur í dönskutíma en níundi bekkur í íþróttum.

Á þriðjudaginn var hápunktur dagsins hjá flestum forkeppni Söngvakeppninar sem sker úr um hver keppir fyrir hönd Laugalandsskóla. Átta atriði frá tónlistarvalinu tóku þátt en aðeins tvö komust áfram auk eins varaatriðis. Í fyrsta sæti voru þær Sigrún Birna Pétursdóttir og Guðbjörg Viðja Antonsdóttir, í öðru sæti Guðjón Andri Jóhannsson og varamaður var Aron Ýmir Antonsson. Fyrir hönd beggja bekkjanna óskum við þeim til hamingju með árangurinn.

Á miðvikudaginn var létt yfir liðinu enda tveir tvöfaldir valtímar eftir hádegi og er þetta því uppáhalds dagur  margra. Í náttúrufræðitíma þann dag var verið að leggja lokahönd á verkefni sem við unnum í hópum sem voru ýmist að gera myndbönd, veggspjöld eða „power point“ sýningu í tengslum við efni bókarinnar.

Á fimmtudaginn var  önnur lota af„peep test“  hjá áttunda bekk í fyrsta tíma á meðan níundi bekkur var í dönskutíma að undirbúa sig fyrir dönskupróf og seinna að vinna í skólablaðinu Vörðunni  (en íþróttatími áttunda bekkjar er tvöfaldur þennan dag).  Seinna þennan dag  snerist þetta aftur við líkt og á mánudaginn.

Í dag (föstudagur) er góð stemning hjá báðum bekkjunum, enda nálgast helgin óðum. Dagurinn í dag hefur að mestu leyti farið í skemmtilegheit á við jólakortagerð, spilun jólatónlistar og það að hlakka til jólanna. Við tókum þó eitt lauflétt samfélagsfræðipróf í morgun.  Núna  erum við öll inní stofu og ýmist gerum jólakort, skreytum stofuna eða bara spilum og höfum gaman. En nú hringir bjallan og segir okkur að þessum pistli þurfi senn að ljúka.

Pistlahöfundar þessa viku voru

Sigurður og Sæmundur

 

 

 

css.php