Fréttir

Fundagerð skólaráðs 8. nóvember 2016

Fundur haldinn í skólaráði Laugalandsskóla þriðjudaginn 8. nóvember 2016

 

Mætt eru: Sigurjón Bjarnason skólastjóri, Bragi Guðmundsson fulltrúi starfsfólks, Thelma María Marínósdóttir fulltrúi kennara, Katrín Sigurðardóttir fulltrúi foreldra, Hulda Brynjólfsdóttir fulltrúi kennara, Rán Jósepsdóttir fulltrúi foreldra, Dagný Rós Stefánsdóttir fulltrúi nemenda og Jóhanna Sigrún Haraldsdóttir fulltrúi nemenda.

 

Sigurjón setti fund og bauð fólk velkomið kl. 15:35.

 

* Skólalykill 2016-2017. Farið yfir helstu þætti lykilsins og efni hans. Náms- og starfsráðgjafi er kominn til starfa við Félags- og skólaþjónustu Rangárvalla og Skaftafellssýslna og hafa nemendur Laugalandsskóla aðgang að honum í skólanum á föstudögum fram á vorönnina.

Fundarmenn lýstu yfir ánægju sinni með Skólalykilinn.

 

* Starfsmannahandbók 2016-2017. Sagt frá helstu þáttum hennar. Sagt frá áherslum í innra mati skólans og nýjum viðmiðum við lestur. Skýrslur um innra mat má finna á heimasíðu skólans https://www.laugaland.is  Starfsmannahandbókin er sömuleiðis á heimasíðunni.

Bent var á nokkur nákvæmnisatriði sem þarf að bæta og laga í handbókinni. Mun það verða gert við fyrsta tækifæri.

Spurt var hvers vegna sjálfsmatið væri ekki lagt fyrir yngri nemendur en í 5. bekk og var því svarað að fyrir yngri nemendur þyrfti að útskýra spurningarnar svo ítarlega fyrir nemendum að efast mætti um hvort sannleiksgildi þeirra svara væri marktæk þar sem sá sem útskýrir gæti hljómað leiðandi í útskýringum sínum.

 

* Fjárhagsáætlun 2017. Drög lögð fyrir fundinn og farið yfir helstu atriði.

Áætlunin er lítð breytt milli ára í helstu atriðum nema með heita vatnið sem nú er selt til sundlaugarinnar eftir stofnun Odda bs. Fram kom að skólinn hefur aldrei farið fram úr fjárhagsáætlunum.

 

* Innra mat skólans. Niðurstöður könnunar á líðan nemenda og starfsfólks lagðar fram. Nemendum og starfsfólki líður almennt vel við allar aðstæður skólahaldsins og er það ánægjulegt. Nú var bætt við nýrri spurningu um hvernig fólki líkaði maturinn í matsalnum og voru gerðar athugasemdir við að þar væri „ALLTAF“ fiskur, en hann er í boði á mánudögum og stundum á miðvikudögum.

 

* Önnur mál.

– Spurt var hvort fundarmenn héldu að skólasamfélagið vildi vetrarfrí og lengja skólaárið í staðinn. – Drög að skóladagatali lagt fyrir fundinn – Skipst var á skoðunum, en talin almenn sátt um að halda skóladagatalinu óbreyttu og komast frekar fyrr út í vorið en að hafa vetrarfrí.

 

– Spurt um útikennslustofuna. Beðið er eftir jarðvegsskiptum sem stranda á annríki.

Foreldrafélag mun ýta á eftir framkvæmdum.

 

– Spurt um hvenær yrði skipt um efni á sparkvellinum, en Ásahreppur hefur samþykkt að láta skipta. Þetta verkefni er á lista Sveitarfélaganna og vonandi verður af því sem fyrst.

 

– Sagt frá erindi sem nemendur í 10. bekk fóru með fyrir sveitarstjóra Ásahrepps og óskuðu þar eftir bættum körfuboltavelli. Þar var vel tekið í erindið og óskað eftir að fá að fara með það áfram til Rangárþings Ytra líka.

 

– Spurt hvort hægt væri að hafa meira tækninám tengt tölvum í skólanum. Tölvuval býður upp á tækninám í sinni kennslu. Rætt um ástæður og möguleika.

 

Fleira ekki rætt og fundi slitið 16:45

 

css.php