Fréttir

Fundargerð skólaráðs. 4. nóvember 2014

Skólaráðsfundur haldinn á Laugalandi 4. nóvember 2014

 

Mættir voru Sigurjón Bjarnason, Guðni Sighvatsson, Borghildur Kristinsdóttir, Bragi Guðmundsson, Katrín Sigurðardóttir, Hulda Brynjólfsdóttir og Óttar Haraldsson sem fulltrúi nemendaráðs.

 

Dagskrá:

 

  1. Farið yfir Skólalykil 2014-2015. Hann er gefinn út árlega, en þar koma fram áherslur í skólastarfi, reglur og fleira ásamt upplýsingum um hvern nemanda og starfsfólk skólans. Lögð er áhersla á að hver nemandi skólans fái að sína mynd birta í Skólalyklinum, en annars er hann með hefðbundnu sniði milli ára og gefinn út í september.
  2. Starfsmannahandbók er gefin út án ártals til að spara pappír og prentunarkostnað. Ekki þarf að gefa hana út árlega, þar sem hún upplýsir um starf allra ára. Nú var hún gefin út að nýju, sér í lagi til að endurbæta upplýsingar um hvernig brugðist skuli við náttúruhamförum. Þessi bók er sérstaklega miðuð við okkur og okkar skóla en það sem almennara má teljast má síðan finna í Handbók um öryggi og velferð barna í grunnskólum sem er verið að vinna að í samstarfi mennta- og menningarmálaráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga.
  3. Drög að fjárhagsáætlun 2015 kynnt og farið yfir lið fyrir lið. Reynt er að fara sparlega með og sýna ráðdeild og fyrirhyggju við rekstur skólans og hefur það tekist mjög vel. Verður svo áfram sem þess er kostur. Helst ber að nefna að skólaakstur hækkar, en fer það eftir nemendafjölda í hverjum bíl. Nemendafjöldi við skólann eru 43 úr Rangárþingi Ytra og 19 úr Ásahrepp, fjórir nemendur koma úr öðrum sveitarfélögum. Alls eru þá 66 nemendur við skólann.
    Spurt var um einstaka liði fjárhagsáætlunar jafnóðum. Fulltrúar skólaráðs voru ánægðir með fyrirliggjandi drög.
  4. Niðurstöður samræmdra prófa í 4. 7. og 10. bekk síðustu tíu til fimmtán árin. Farið var yfir gengi skólans í samræmdum prófum í samanburði við landið allt og Suðurland í heild. Laugalandsskóli hefur í öllum greinum, flest ár verið yfir landsmeðaltali og alltaf yfir Suðurlandsmeðaltalinu. Niðurstöðurnar hafa verið settar upp í línuriti og súlum og munu verða aðgengilegar á heimasíðu skólans innan skamms.
  5.  Innra mat skólans. Hulda kynnti fyrstu niðurstöður úr könnun á líðan starfsfólks og nemenda sem lögð var fyrir í lok október. Eins og undanfarin ár kom sú könnun vel út og líður bæði nemendum og starfsfólki vel í skólanum og er ánægja með hann sem vinnustað.
  6. Önnur mál.
    Farið yfir stöðu mála við útikennsluaðstöðuna. Sagt frá því að búið er að steypa undir girðingu og gera klárt fyrir að negla gólf á palla sem þar verða. Vilji er fyrir því að foreldrar í skólasamfélaginu muni koma og leggja hönd á plóg við að negla gólfið, en þeir komu að undirbúningsvinnu við jarðvegsskipti síðastliðið vor og eru í startholum að koma aftur þegar tilbúið er að taka við þeirra vinnu.

 

Fleira ekki rætt og fundi slitið.

Hulda Brynj.

css.php