Fréttir

Í dag blótum við þorra

þorramaturÁ morgun er bóndadagur, en það er fyrsti dagur hins gamla þorramánaðar, sem var fjórði mánuður vetrar, en þá taldist veturinn hálfnaður – og er aðbúnaður fólks var síðri en nú á dögum hefur það vísast verið fagnaðarefni á landi hér, en um leið fyrirkvíðanlegt hjá sumum því þá  ,,minnkar stabbinn minn, magnast harðindin…“ eins og Kristján fjallaskáld orti hér um árið.

Í dag verður veisla í skólanum, þorramatur á borðum og við veljum okkar Þorraþræl.

Þorraþrællinn okkar, er skemmtilegur siður þar sem Hulda okkar yrkir nokkra fyrriparta og krakkarnir í skólanum yrkja síðan botna í gríð og erg og einn þeirra – sá besti að mati dómnefndar er valinn Þorraþrællinn 2017!

Bestu ferskeytlurnar munu birtast hér á vefnum þegar úrslitin liggja fyrir.

 

Árni Björnsson hefur þetta að segja um þorrann, í bók sinni, Sögu daganna:

 

19-25. janúar. Þorri. Þorri er fjórði mánuður vetrar og hefst á föstudegi  í 13. viku vetrar að forníslensku tímatali (sjá nánar hér: http://www.visindavefur.is/svar.php?id=1132

Þá taldist veturinn hálfnaður. Líklegt er talið að Þorri hafi verið vetrarvættur (yfirnáttúruleg vera) eða veðurguð.  Opinber þorrablót voru haldin í heiðnum sið, en eftir kristnitöku lengi vel einungis í heimahúsum. Eftir að Íslendingar öðluðust trúfrelsi seint á 19. öld var aftur tekið að halda opinber þorrablót.

 

Í dag fagna margir Íslendingar þorra og stór þorrablót eru haldin víða um land.  Þá er boðið upp á mat sem á sér langa hefð hér á landi, og má segja að um sé að ræða gamlan íslenskan hversdagsmat. Einu geymsluaðferðir þess tíma voru að súrsa, salta eða reykja mat. Maturinn er oft borinn fram í trogi, en það er tréílát frá fyrri tíð. Meðal þess sem borðað er á þorrablótum eru súrsaðir hrútspungar, súr hvalur, svið, sviðasulta, harðfiskur, hangikjöt, laufabrauð og hákarl.  Brennivín er oft drukkið með hákarlinum.

Heimild: Árni Björnsson . 1993. Saga daganna. Reykjavík. Mál og menning.

 

Bóndadagur er fyrsti dagur Þorra.  Samkvæmt gömlum heimildum var sú hefð meðal almennings að húsfreyjan færi út kvöldið áður og byði Þorrann velkominn og inn í bæ, eins og um tiginn gest væri að ræða.

Nú á dögum gefa margar konur mönnum sínum eitthvað í tilefni dagsins, eins og þorramat eða blóm.

Heimild: Árni Björnsson . 1993. Saga daganna. Reykjavík. Mál og menning.

css.php