Fréttir

Menntaverðlaun Suðurlands 2012

Laugalandsskóli fékk Menntaverðlaun Suðurlands 2012 fyrir framúrskarandi kennslu í framsögn og framkomu og afar góðan árangur í lestrarkeppnum undanfarinna ára. Forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, afhenti verðlaunin í Fjölbrautaskóla Suðurlands nýverið í tengslum við hátíðarfund Fræðslunets Suðurlands.

Á myndinni frá vinstri eru: Björg Kristín Björgvinsdóttir kennari, Ragna Magnúsdóttir kennari, Sigurjón Bjarnason skólstjóri í leyfi, Ólafur Ragnar Grímssson, Kolbrún Sigþórsdóttir starfandi skólastjóri, Hulda Brynjólfsdóttir kennari og Helgi Kjartansson f.h. menntanefndar Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga. Ljósmynd/MHH.

Laugalandsskóli hefur borið sigur úr býtum í Stóru upplestrarkeppninni undanfarin 10 ár auk þess sem nemendur við skólann hafa löngum skipað sér í annað og/eða þriðja sætið í keppninni.

Við afhendingu verðlaunanna sagði Kolbrún Sigþórsdóttir skólastjóri:

„Forseti Íslands og aðrir gestir!

Það er mér í senn ánægja og heiður að veita þessum verðlaunum viðtöku fyrir hönd Laugalandsskóla.

Frammistaða nemenda við skólann í Stóru upplestrarkeppninni er afrakstur af skipulegu starfi kennara, markvissri þjálfun nemenda og langri hefð fyrir vönduðum upplestri og sviðsframkomu í skólanum.

Ég er stolt af nemendum okkar, einvala kennaraliði og öðru starfsfólki skólans.

Takk fyrir okkur!“

Aðspurð um þýðingu verðlaunanna fyrir skólann sagði Kolbrún í viðtali við DFS: „Þessi verðlaun eru ánægjuleg viðurkenning á því starfi sem fram fer í skólanum, dugnaði og metnaði stjórnenda og kennara við skólann og síðast en ekki síst frábærri frammistöðu þeirra nemenda sem tekið hafa þátt í Stóru upplestrarkeppninni fyrir hönd skólans.“

 

css.php