Fréttir

Samvinnuverkefni í 8.-10. bekk á vorönn 2013

Á þessari önn vinna nemendur í 8.-10. bekk nokkur samvinnuverkefni í íslensku og ensku. Tilgangurinn með slíku vinnulagi er margþættur. Fyrir það fyrsta hafa nemendur frjálsar hendur hvað varðar nálgun og efnistök sem er til þess fallið að virkja sköpunarkraft þeirra og ímyndunarafl. Nemendur þurfa einnig að vinna saman – sammælast um nálgun, skipuleggja verkið, skipta með sér verkum, samhæfa einstaka þætti o.s.frv. Allir verða að leggja sitt af mörkum, axla ábyrgð á framlagi sínu til hópsins. Hver hópur kynnir að endingu afrakstur samvinnunnar frammi fyrir kennara og öðrum nemendum. Loks er námsmatið hluti af lærdómsferlinu. Auk endurgjafar frá kennara gefa nemendur hver öðrum einkunn (jafningjamat) og meta jafnframt eigið framlag og annarra innan hópsins (sjalfsmat).

Hér er dæmi um metnaðarfullt og vel unnið samvinnuverkefni nokkurra nemenda í 10. bekk. Verkefnið unnu Árni Páll Þorbjörnsson, Egill Þór Hannesson, Guðmundur Hreinn Grétarsson, Margrét Rún Guðjónsdóttir og Sigþór Helgason.

Þegar vel tekst til er verkefnavinna af þessu tagi í senn skapandi, eflir sjálfsvitund, eykur félagsfærni og stuðlar að borgaravitund og snertir þannig mikilvæga grunnþætti menntunar samkvæmt nýrri aðalnámskrá grunnskóla.

Síðastnefndi þátturinn – borgaravitund – varðar hæfni einstaklingsins til að taka virkan þátt í lýðræðissamfélagi í samræmi við réttindi sín og skyldur. Um þetta segir Gerður G. Óskarsdóttir fyrrverandi fræðslustjóri Reykjavíkur og núverandi forstöðukona Rannsóknarstofu um þróun skólastarfs í útvarpsspjalli við Ævar Kjartansson og Jón Ólafsson:

„Það er líka talað um lýðræðisskólann….og að læra í lýðræði en ekki bara að læra um lýðræði þar sem maður þjálfast í lýðræðislegum vinnubrögðum. Mér finnst það mjög skylt einstaklingsmiðuninni og rödd nemenda…Mér finnst það vera lýðræðislegur skóli og það að læra í lýðræði þegar nemendur eru að vinna saman í hópum, eru sjálfir að móta það sem þeir eru að gera en þurfa að skila afurð. Og það er einhver rammi utan um það. Og þegar nemendur eru að tala saman og komast að niðurstöðu eða vinna einstaklingslega þurfa þeir sjálfir að hafa áhrif einhvern veginn á það sem þeir eru að gera. Og standa skil á sinni áætlun og standast hana. Þetta eru allt saman lýðræðisleg vinnubrögð….“ (Gerður G. Óskarsdóttir í þættinum „Alltaf að rífast: Átök í íslenskum stjórnmálum fyrr og nú“ á Rás 1, 9. desember 2012)

css.php