Sjálfsmat 1. hluti

Efni

 • Inngangur
 • Áætlun Sjálfsmats
  • Vor 2003
  • Haust 2003
  • Vor 2004
  • Haust 2004
  • Vor 2005
  • Haust 2005
  • Vor 2006
 • Stjórnun
 • Samantekt

Inngangur

Á síðustu árum hefur sjálfsmat æ oftar borið á góma í skólaumræðunni og leggja nú flestir grunnskólar á landinu aukna áherslu á skipulagt mat á skólastarfi sínu. Megintilgangur sjálfsmats er að gera starfsfólki skóla auðveldara að vinna að framgangi markmiða skólans, meta hvort þeim hafi verið náð, endurskoða þau og stuðla að umbótum. Sjálfsmatið á að draga fram sterkar og veikar hliðar skólans og er liður í þróun hans og eðlilegur hluti af starfs- og þróunaráætlunum hans. Til að auka gæði matsins þarf það að vera altækt, þ.e. ná til alls skólasamfélagsins og því verða nemendur, foreldrar, kennarar og annað starfsfólk skólans að fá að tjá skoðanir sínar.
Það gefur auga leið að ekki er hægt að meta alla þá ólíku þætti sem hafa áhrif á skólastarfið í einu vetfangi því þeir eru bæði margir og margslungir. Sem dæmi má nefna stefnu og markmið, nám og kennslu, námsmat, nemendur, aðbúnað og stjórnun svo eitthvað sé nefnt. Til verksins var skipuð af skólastjóra, matsnefnd, sem hóf störf haustið 2002. Hana skipuðu Stefán Ingimar Þórhallsson, kennari, og Elísabet Steinunn Jóhannsdóttir, kennari. Um áramótin 2002-2003 lét Elísabet af störfum og tók þá við Sigrún Björk Benediktsdóttir. Nefndin setti fram áætlun um sjálfsmat Laugalandsskóla sem nær allt til ársins 2006. Samkvæmt henni er gert ráð fyrir að á vori komanda verði búið að skoða einkenni stofnunarinnar og stöðu hennar í samfélaginu auk þess að meta stjórnun skólans.
Við undirbúning og framkvæmd sjálfsmats þarf að huga að mörgum þáttum. Þar þarf meðal annars að ákveða hvaða matsaðferðir á að nota og hvernig standa skuli að upplýsingaöfluninni. Síðan þarf úrvinnsla upplýsinga að vera með þeim hætti að niðurstöður geti orðið sem áreiðanlegastar og fyllsta trúnaðar sé gætt í allri meðferð þeirra.
Eftir að hafa skoðað þau matstæki sem hægt er að nota við sjálfsmat skóla var ákveðið að velja „Glerverk“. Það er tölvuforrit sem var sérstaklega hannað með það fyrir augum að aðstoða við sjálfsmat skóla. Forritinu fylgir m.a. gagnagrunnur með tilbúnum spurningum sem hægt er að raða saman eftir því sem meta á og mynda þannig marga ólíka spurningalista. Einnig er hægt að búa til spurningar og bæta við grunninn. Einn megin kostur matstækisins er að hægt er á auðveldan hátt að fá fram niðurstöður á myndrænan hátt sem nota má í umfjöllun um þær.


Áætlun sjálfsmats

Fljótlega eftir áramót var hafist handa við að gera áætlun um sjálfsmat Laugalandsskóla en þá hafði matsnefnd þegar kynnt sér hvað fælist í sjálfsmati og hvaða tæki stæðu til boða við gerð slíks mats. Við gerð áætlunar var stuðst við ritið „Sjálfsmat skóla“ sem gefið var út af Menntamálaráðuneytinu árið 1997. Eftir að hafa velt fyrir sér þeim þáttum sem meta þarf komst matsnefnd að þeirri niðurstöðu að eðlilegast væri að byrja á að skoða einkenni stofnunarinnar og stöðu í samfélaginu. Því næst ætti að athuga þá þætti sem lúta að stjórnun skólans og halda svo áfram niður eftir skólasamfélaginu og enda í ytri tengslum skóla. Hér á eftir kemur sú áætlun sem unnið verður eftir við sjálfsmatið á komandi árum.


Vor 2003

Gerð áætlun að sjálfsmati Laugalandsskóla. Tekin saman greinargerð um einkenni skólans og stöðu hans í samfélaginu. Spurningalistar mótaðir og lagðir fyrir starfsfólk, foreldra og nemendur skólans til að meta stjórnun hans. Úrvinnsla upplýsinga og skýrslugerð.


Haust 2003

Samantekt á stefnu og markmiðum Laugalandsskóla með vísan til laga um grunnskóla, reglugerða og aðalnámskrár auk sérstöðu og aðstæðna skólans. Stefna skólans í þróunar- og nýbreytnistörfum skoðuð svo og skólanámskrá hans.
Teknar saman upplýsingar um starfsfólk, s.s. fjöldi, starfsheiti, aldursdreifing, kyn og menntun og starfshópurinn skoðaður út frá þeim. Í beinu framhaldi verður starfsmannastjórnunin tekin til athugunar, skoðuð stefna varðandi ráðningar, endurnýjun og endurmenntun. Að lokum verður samvinna starfsfólks metin og komist verður að því hvort einhver vandamál með starfsmenn séu til staðar.


Vor 2004

Á þessari önn verður nám og kennsla í Laugalandsskóla metin. Skoðað verður skipulag og ábyrgð á kennslu nemenda, markmið námsgreina og námsþátta og tengsl markmiða og námsefnis. Farið verður yfir gæði námsefnis, kennsluaðferða og sérstakan stuðning við nemendur.
Að því búnu verður aðbúnaður skólans metinn. Þar má nefna fjárveitingar, vinnuaðstöðu nemenda og kennara, stoðþjónustu við nemendur, þjónustu við kennara, skólasafn, skólalóð og umgengni í skólanum og á skólalóð.


Haust 2004

Aðferðir og tæki við námsmat tekin fyrir ásamt tíðni prófa, ábyrgð á prófagerð, námsmati og einkunnagjöf, þætti nemenda í námsmati og tengsl námsmatsins við námsmarkmið. Þá verður einnig skoðaður námsárangur og túlkaðar niðurstöður námsmats, s.s. skólapróf og samræmd próf.
Teknar saman ýmsar upplýsingar um nemendur Laugalandsskóla, s.s. gerð nemendahópsins, brottfall, þjónusta við nemendur, félagslíf og ábyrgð þeirra á eigin námi. Síðast en ekki síst verða samskipti nemenda og starfsmanna skoðuð.


Vor 2005

Á lokaspretti matsins verða ytri tengsl skólans skoðuð og metin. Þannig verður foreldrasamstarf skoðað, tengsl við aðra grunnskóla, framhaldsskóla, atvinnulíf, íþrótta- og ungmennafélög og önnur tengsl Laugalandsskóla við samfélagið.


Haust 2005

Að lokum verður gerð samantekt á helstu niðurstöðum og dregnir fram styrkleikar og veikleikar stofnunarinnar, auk þess sem gerð verður grein fyrir þeim úrbótum og árangri sem náðst hefur frá því mat hófst. Gerð verður þróunaráætlun sem byggir á samantekt og í henni settar fram tillögur um úrbætur.


Vor 2006

Skýrsla fullunnin, hún kynnt skólasamfélaginu og sett á vef skólans.

Einkenni stofnunar og staða í samfélaginu
Laugalandsskóli í Holtum hefur verið starfræktur frá árinu 1958. Þrír hreppar stóðu að byggingu hans; Holtamannahreppur, Landmannahreppur og Ásahreppur. Fyrstu tíu árin var heimavist starfrækt við skólann en skólaakstur var tekin upp 1968.
Árið 1981 var hafist handa við byggingu íþróttahúss og menningarmiðstöðvar þar sem skapaðist góð félags- og fundaraðstaða fyrir íbúa hreppanna. En fyrst og helst hýsir þessi nýja bygging fullbúið mötuneyti og skólaeldhús, bókasafn, smíðastofu og „Súlnasalinn” sem er stórt rými til kennslu. Lokið var við nýja sundlaug árið 1994. Nú standa að rekstri skólans Ásahreppur og Rangaárþing ytra (Holta- og Landsveit sameinaðist Rangárvallahreppi og Djúpárhreppi árið 2002).
Laugalandsskóli er einsetinn. Húsnæðið opnar kl. 8.15 og kennsla hefst kl. 8.30. Nemendur og starfsfólk fá heita máltíð í hádeginu alla virka daga. Félagslífi og tómstundastarfi í skólanum er stjórnað af nemendaráði í samráði við skólastjóra, þar sem leitast er við að hafa einhverja skemmtun aðra hverja viku. Skólinn er í samstarfi við kirkju, ungmennafélög, íþróttafélag og Tónlistarskóla Rangárvallasýslu á skólatíma eða strax eftir skóla. Kennarar í Tónlistarskóla Rangárvallasýslu koma og kenna nemendum 1.- 3. bekkjar á flautu og gítar. Einnig er starfræktur íþróttaskóli fyrir nemendur í 1.- 4. bekk ásamt dagskóla, sem er lengd viðvera þannig að allir nemendur eru í skólanum í 37 kennslustundir. Þetta fyrirkomulag gerir skóladaginn samfelldan fyrir alla nemendur.
Eftir 44 ára starfsemi í þjónustu við íbúa byggðalaganna er Laugalandsskóli samofinn samfélaginu. Hann er stofnun innan þess sem veitir hinni uppvaxandi kynslóð menntun. Hún mótar tvímælalaust lífsferil, félagslega stöðu og sjálfsmynd þeirra sem hennar njóta og hefur því áhrif á tækifæri til starfa og þátttöku í þjóðfélaginu.
Árlegur starfstími skólans er 180 kennsludagar eða rúmlega 9 mánuðir. Viðvera kennara er samkvæmt vinnuramma sem kennari og skólastjóri ákveða í sameiningu að hausti, sbr. kjarasamning.
Laugalandsskóla sækja nú nemendur í 1.- 10. bekk. Undanfarin ár hafa nemendur verið á bilinu 75 – 92 en nú stunda 80 nemendur nám við skólann.
Prófdagar að vori eru sex þar sem nemendur fara heim að loknu prófi. Jólapróf eru inni í stundatöflu nemenda á venjulegum skóladegi.
Farið er eftir Aðalnámskrá í sambandi við námsgreinar og tímafjölda þeirra. Lögð er áhersla á aukatíma í stærðfræði, íslensku, dönsku og ensku í 10. bekk. Einnig er mikil áhersla lögð á listir og tæknimennt. Valgreinar í 9. og 10. bekk hafa verið 6 á viku og eru þær allar tengdar verklegum þáttum, s.s. heimilisfræði, listum, upplýsinga- og tæknimennt.
Kennarar eru tíu í rúmlega átta stöðugildum, tveir skólaliðar, einn ræstitæknir, ein ráðskona og tvær aðstoðarstúlkur í mötuneytinu ásamt tveimur húsvörðum sem starfa á vöktum vegna annarrar starfsemi við Menningarmiðstöðina.
Stjórnskipulag er samkvæmt skipuriti sem skiptist í yngsta stig, 1. – 3. bekkur, miðstig, 4. – 7. bekkur, og unglingastig, 8. – 10. bekkur. Árgangastjórar eru á tveimur fyrstu stigunum en fagstjórar á unglingastigi. Stoðþjónusta samanstendur af bókasafnsverði, skólaliðum, matráðskonu og starfsfólki mötuneytis. Húsverðir sjá um húsvörslu og verkstjórn ræstinga. Öll sviðin heyra beint undir skólastjóra. (Sjá fylgiskjal 1)
Kennarafundir eru haldnir einu sinni í mánuði og oftar ef þörf krefur. Einnig eru árgangastjóra- og árgangafundir haldnir mánaðarlega. Ef þörf er á er fundað oftar. Fundað er með starfsmönnum tvisvar á hverju skólaári, einn fundur í byrjun skólaárs og annar á vorönn.
Ákvörðunarferli er með þeim hætti að á árgangastjórafundum með skólastjóra eru flestar ákvarðanir teknar. Nánari útfærsla og vinnulag er síðan ákveðið á árgangafundum ásamt ákvörðunum sem tengjast innri málum skólans. Upplýsingum er síðan komið á framfæri við starfsfólk og nemendur eftir því sem við á.
Stjórnunarstefnan er samkvæmt skipuriti (fléttuskipurit) þar sem leitast er við að allir starfsmenn skólans finnist þeir vera þátttakendur í sterkri liðsheild til að móta og viðhalda góðu og öflugu skólastarfi. (Sjá fylgiskjal 1)
Árgangastjórar hafa eftirlit með öllum kennsluáætlunum í sínum árgöngum og bera þær saman við Aðalnámskrá grunnskóla. Svo og endurskoðar fagstjóri námsáætlanir skólans í viðkomandi grein. Árgangastjórar hafa einnig yfirsýn yfir kennsluhætti og gefa kennurum ráð varðandi kennslu og agamál. Skólastjóri er virkur í að heimsækja bekki meðan á kennslu stendur.
Starfsmannasamtöl eru tvö á ári. Í fyrra starfsmannasamtalinu er fjallað um stundaskrána og önnur störf samhliða kennslunni sem skólastjóri getur falið starfsmanni sbr. kjarasamning. Seinna starfsmannasamtalið er að vori en þá er farið yfir störf vetrarins og ákvarðanir um starfssvið næsta árs teknar.
Frá 1999 hefur skólastjóri beðið kennara um að skila til sín umsögn, á þar til gerðu eyðublaði (trúnaðarskjal), þar sem fjallað er um kennsluna og hún metin. Dregnir eru fram þeir þættir sem vel tókust og hvað mætti betur fara. Einnig segja kennarar álit sitt á samkennslu og stoð- og sérkennslu í þeim bekkjum sem það á við.
Þróunarstarf Laugalandsskóla hefur til að mynda verið fólgið í samvinnu Tónlistarskóla Rangárvallasýslu og grunnskólans með því að gefa öllum nemendum í 1. og 2. bekk kost á að læra á blokkflautu og 3. bekk á gítar. Markmiðið hefur verið að auka sjálfstraust nemenda svo og að glæða tónlistaráhuga þeirra. Reynt er að hafa eitt þróunarverkefni í gangi á hverju ári. Skólaárið 2001-2002 var það Tölvur og tónlist en 2003-2004 verður þróunarstarfið tengt Sun Bay.
Sun Bay er skóli í Finnlandi þar sem unnið er skipulega eftir tvíþættri stefnu. Annars vegar er unnið með yngri nemendur eftir stefnu sem kallast Bright Start og felst hún í að skapa jöfn tækifæri ólíkra nemenda til innihaldsríks náms. Skipulögð hugsun, námstækni og þrautalausnir eru kennd og er markmiðið að nemendur hafi ánægju af námi sínu og hljóti umbun í vel unnu verki. Hins vegar vinna eldri nemendur eftir kerfi sem heitir Instrumental Enrichment. Þar eru ákveðnar tegundir verkefna notaðar til að hjálpa einstökum nemendum að sigrast á námserfiðleikum sínum, sem oftar en ekki eru tengdir fáum námsgreinum. Nemendur geta valið um tvær nálgunarleiðir að námi sínu, listir og tækni eða vísindi og tækni.
Kennarar Laugalandsskóla hafa verið afar jákvæðir gagnvart endurmenntun, enda er hún stór þáttur í því að stuðla að góðum og metnaðarfullum skóla í þessu hraða og breytilega samfélagi sem við búum í. Til þess að meðtaka nýjungar bæði í námsefni og kennslu-fræðum er nauðsynlegt að sækja námskeið. Í Laugalandsskóla var samþykkt af kennurum og skólanefnd endurmenntunaráætlun til þriggja ára. Í henni er að finna námskeið í helstu grunnfögum skólans ásamt tölvunámi. (Sjá fylgiskjal 2)


Stjórnun

Matið á stjórnunarþætti Laugalandsskóla hófst með gerð nokkurra ólíkra spurningalista sem voru aðlagaðir að þeim hópum sem tóku þátt. Þannig var búinn til sérstakur listi fyrir starfsfólk skólans, annar fyrir kennara, þriðji fyrir nemendur og fjórði fyrir foreldra. (Sjá fylgiskjöl 3-6)
Framkvæmd matsins fór þannig fram að á starfsdegi svöruðu kennarar og annað starfsfólk Laugalandsskóla spurningalistum sínum og beðið að skila þeim innan ákveðinna tímamarka. Spurningalistar voru lagðir fyrir nemendur í 8.- 10. bekk í sömu kennslustund á skólatíma. Spurningalistar til foreldra voru sendir heim með nemendum, einn listi á hvert heimili. Listunum var síðan skilað aftur í lokuðum umslögum innan tilgreindra tímamarka (sjá fylgiskjal 7). Þeim listum sem bárust eftir að úrvinnsla hófst var eytt. Öllum spurningalistum var svarað nafnlaust og þeim eytt eftir að úrvinnslu gagna lauk.
Hér á eftir kemur umfjöllun sem byggir á niðurstöðum viðhorfakannananna og leyfum við okkur að draga ákveðnar ályktanir út frá þessum upplýsingum (sjá fylgiskjöl 8-10). Þannig túlkum við svarmöguleikana „Mjög sammála“, „Frekar sammála“, „Mjög góð“ og „Góð“ á jákvæðan hátt eða sem styrkleika en svarmöguleikana „Frekar ósammála“, „Mjög ósammála“, „Sæmilega“ og „Ófullnægjandi“ á neikvæðan hátt eða sem veikleika.

 

Allt starfsfólk Laugalandsskóla er sammála því að skólinn sé góður vinnustaður þar sem því líður vel og flestir telja að þar ríki góður starfsandi. Skólastjóri gerir kröfur til starfsfólks síns og er metnaðargjarn og áhugasamur um að bæta árangur skólastarfsins. Allir kennarar og lang flestir foreldrar eru sammála um það að komið sé til móts við alla nemendur skólans og nemendur telja að skólastjóri geri kröfur til þeirra í námi sínu.
Starfsmenn eru almennt mjög ánægðir með samskipti sín við skólastjóra og telja hann sveigjanlegan og finnst hann koma til móts við þá þegar á þarf að halda. Einnig hrósar hann starfsfólki sínu fyrir vel unnin störf. Stærsti hluti foreldra og nemenda telur einnig að þessi samskipti séu í góðu lagi. Allir starfsmenn eru sammála því að starfsmannaviðtölin skili árangri. 

 

Samstarf kennara virðist vera mjög gott og skipulag þess ýtir undir það og gegnir sama máli um samstarf kennara milli aldursstiga. Allir sem tjáðu sig um samstarf skólastjóra og staðgengils hans voru sammála um að samstarfið væri gott eða mjög gott.
Varðandi það hvernig tekið er á málum sem upp koma og þau leyst tala starfsmenn einum rómi, allir eru sammála því að tekið sé strax á málum og þau leyst á farsælan hátt. Sama má segja með lang flesta foreldra og nemendur.Þegar spurt er um stefnumótun og faglega forystu skólastjóra svara allir starfsmenn því til að hann sýni faglega forystu og vinnubrögð. Starfsmenn telja hann góða fyrirmynd og eins flestir foreldrar en 60% nemenda voru sammála þessu. Ferill ákvarðanatöku er skýr og allir vita til hvers er ætlast af þeim í skólastarfinu.
Allir kennarar eru sammála um að nýting kennslustunda og kennsludaga sé góð og eru sáttir við skipulag vinnutíma. Þó vildi fjórðungur þeirra fá að ráða meiru við gerð vinnuramma síns.
Tíðni kennarafunda er talin hæfileg og fundarstjórn skilvirk og góð. Allir eru sammála því að fundirnir skili árangri og nær allir tjáðu að þeir væru vettvangur þar sem hægt væri að tjá skoðanir sínar um málefni skólans en aðeins einn kennari var frekar ósammála því.
Nýting reynslu og þekkingar starfsfólks er talin góð í skólastarfinu og allir virðast fá að njóta hæfileika sinna. Einn kennari taldi sig þó hafa fengið takmarkað tækifæri til að hafa áhrif.
Allir kennarar eru ánægðir með stefnu skólans í endur- og símenntun og lang flestir telja að þeir eigi kost á ráðgjöf og stuðningi þegar á þarf að halda. Þó kom í ljós að ekki er öllum starfsmönnum ljóst hvaða ráðgjöf stendur til boða.
Þeir sem sitja árgangastjóra- og árgangafundi telja þá mjög árangursríka þó hér sé um að ræða nýjung í stjórnunarháttum skólans. Önnur nýjung er „Á döfinni“, en það er vikulegt yfirlit yfir þá atburði sem eru á döfinni í skólalífinu. Stærstur hluti nemenda er ánægður með þetta fyrirkomulag og allir kennarar. Starfsfólk telur sig fá nægjanlega góðar upplýsingar um ákvarðanatöku skólastjóra og allir foreldrar eru mjög sáttir við upplýsingaflæði frá skólanum. Þannig eru t.d. allir ánægðir með fréttabréf skólans, Stafinn, og nær allir með Skólalykilinn. Einum þátttakanda könnunarinnar varð að orði að með tilkomu Stafins og „Á döfinni“ væri upplýsingaflæði í skólasamfélaginu skýrt og gott.
Aðgengi að skólastjóra er mjög gott og allir telja hann mjög sýnilegan í öllu starfi skólans. Einnig er talið að hann fylgist vel með námsferli nemenda skólans og hafi þar góða yfirsýn.
Skráning gagna á borð við námsferil nemenda, fundargerða og annarra upplýsinga er talin vera í mjög góðu lagi.
Sýn og stefnumótun skólans er talin nokkuð skýr. Þó er það athyglivert að einn fjórði kennara veit ekki hvort unnið sé eftir henni.


Samantekt

Þegar vikið er að veikum hliðum stjórnunar skólans er þar enginn þáttur afgerandi. Þó kom í ljós að 40% nemenda fannst skólastjóri ekki góð fyrirmynd og fimmtungur þeirra telur að honum hafi ekki tekist að skapa góðan starfs- og liðsanda. Fjórðungur nemenda finnst „Á döfinni“ ekki nægjanlega skilvirkt upplýsingatæki og fjórðungur starfsmanna hefði vilja ráða meiru við gerð vinnurammans en þó voru allir sáttir með hann.
Þegar niðurstöður eru skoðaðar kemur í ljós að þáttur stjórnunar skólans er að flestu leiti mjög góður. Þar má fyrst nefna að starfsfólki skólans finnst skólinn vera góður vinnustaður þar sem öllum líður vel og tekið sé tillit til hæfileika þeirra og þekkingar. Öll samskipti innan skólasamfélagsins virðast vera í góðu lagi ásamt upplýsingaflæði í og frá skólanum. Almenn ánægja er með störf skólastjóra og má þar telja metnað hans í starfi og fagleg vinnubrögð. Hann þykir sveigjanlegur og gerir kröfur til starfsmanna jafnt sem nemenda. Einnig er hann sýnilegur í skólastarfinu, aðgangur að honum góður og eins tekur hann strax á öllum vandamálum sem upp koma.
Þegar á heildina er litið má því segja að Laugalandsskóli sé nokkuð vel settur. Stærð hans og einkenni eru vel til þess fallin að skapa gagnsætt og persónulegt skólasamfélag þar sem yfirsýn skólastjóra og öll samvinna og samskipti geta leitt til árangursríks skólastarfs. Mat á stjórnunarþættinum sýnir að stjórnun Laugalandskóla er sterk. Þeir þættir sem mætti þó styrkja er að gera „Á döfinni“ skýrara fyrir nemendur skólans og einnig benda niðurstöður til þess að endurbæta þurfi sýn Laugalandsskóla og kynna fyrir starfsfólki skólans og samfélaginu öllu.

css.php