Skemmtilegt stórafmæli í skólanum
Í gær var stórafmæli í Laugalandsskóla. Skólastjórinn Sigurjón Bjarnason varð sextugur og Viktoría Rós í 1. bekk varð 6 ára. Borð svignuðu undan krásum, þær stöllur í eldhúsinu, Helga Fjóla, Ingibjörg Lilja og Dýrfinna Björk báru á borð lambalæri að hætti hússins. Nemendur skólans færðu Sigurjóni fallega hettupeysu skreytta eftir hugmyndum nemenda í 1. bekk, með mynd og áletrun. Þar stóð meðal annars „kóngurinn“ á táknmáli, sem er mikið notað í bekknum. Þessu fylgdi afmæliskort sem allir nemendur skólans skrifuðu undir. Þau Sigurjón og Viktoría skáru síðan fyrstu sneið af afmælistertunum sem voru í boði, enda var stærð þeirra í takt við tilefnið og fjölda gesta.
Fríða Hansen tónlistarkennari og nemendur í tónlistavali voru forsöngvarar í afmælissöngnum. Síðan sungu þau lag Sigvalda Kaldalóns „Á Sprengisandi“, við ljóð Gríms Thomsens.
Sveitarstjórarnir Ágúst Sigurðsson og Valtýr Valtýsson komu síðan færandi hendi með blómvönd og vandaðar bækur handa Sigurjóni, í tilefni dagsins.
Að sögn er þetta einn ánægjulegasti dagur sem skólastjórinn hefur upplifað í skólanum og hefur hann upplifað þá marga 😊.