Laugalandsskóla var slitið þriðjudaginn 28. maí síðastliðinn í blíðskaparveðri. Foreldrar, aðstandendur og nemendur fjölmenntu á staðinn og var nánast húsfyllir. Fyrir athöfnina og á milli dagskráratriða léku og sungu nemendur úr tónlistarvali skólans nokkur lög. Þegar skólastjóri hafði flutt ræðu sína í góðu hljóði steig Ásta Begga Ólafsdóttir, oddviti Ásahrepps, í pontu og afhenti tveimur nemendum skólans, Sunnu Hlín Borgþórsdóttur og Guðlaugu Birtu Davíðsdóttur, viðurkenningu fyrir góðan árangur í Stóru upplestrarkeppninni. Þá hélt formaður nemendafélagsins, Guðný Salvör Hannesdóttir, stutta tölu og rifjaði upp eftirminnileg atvik frá skólagöngu hennar og deildi með viðstöddum. Hún lauk lofsorði á skólann og starfsfólk hans og sagðist kveðja Laugalandsskóla með söknuði. Síðan afhentu umsjónarkennarar nemendum einkunnabækur uppi á sviði og kvöddu þá með handabandi og brosi á vör. Í lokin var boðið upp á ís og fólk hristi sig saman í spjall um landsins gagn og nauðsynjar áður en hver hélt til síns heima.
- Almennt
- Starfsmenn
- Nemendur
- Fréttir
- Annað