Ytra mat í Laugalandsskóla
Í næstu viku 14. – 16 mars verður framkvæmt ytra mat í skólanum hjá okkur. Þá koma tveir fulltrúar frá Menntamálastofnun, þær Birna Sigurjónsdóttir og Oddný Eyjólfsdóttir til okkar og gera ytra mat í skólanum.
Þeir matsþættir sem verða metnir eru stjórnun, nám og kennsla, vinnubrögð við innra mat og skólabragurinn. Viðmiðin eru byggð á lögum og reglugerðum um skólastarf og aðalnámskrá grunnskóla. Við mótun viðmiðana voru áherslur og straumar í skólastefnum sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands einnig hafðir til hliðsjónar auk sameiginlegrar framtíðarsýnar fyrir grunnskólastarfið 2007-2020.
Birna og Oddný fara í allar bekkjardeildir skólans og í hinar ýmsu kennslustundir þ.e. bæði bóklegar og verklegar og taka viðtöl við rýnihópa sem eru skólaráð, kennarar, aðrir starfsmenn, foreldrar og nemendur í 4.-10. bekk. Allir hóparnir voru valdir af handahófi.
Markmið og tilgangur ytra mats er eftirfarandi:
Markmið mats og eftirlits með gæðum starfs í grunnskólum er samkvæmt 35. grein laga um grunnskóla nr. 91/2008 að:
- veita upplýsingar um skólastarf, árangur þess og þróun til fræðsluyfirvalda, starfsfólks skóla, viðtökuskóla, foreldra og nemenda,
- tryggja að starfsemi skóla sé í samræmi við ákvæði laga, reglugerða og aðalnámskrár grunnskóla,
- auka gæði náms og skólastarfs og stuðla að umbótum,
- tryggja að réttindi nemenda séu virt og að þeir fái þá þjónustu sem þeir eiga rétt á samkvæmt lögum.
Með ytra mati er unnið að öllum þessum markmiðum og lögð sérstök áhersla á að efla og styðja innra mat og gæðastjórnun skóla, styðja skóla, stjórnendur og kennara í umbótum á eigin starfi, hvetja kennara til að vinna saman að því að bæta eigin starfshætti og vera skólum hvati til frekari skólaþróunar.
Til grundvallar matinu eru viðmið um gæði á þremur sviðum skólastarfs: I Stjórnun, II Nám og kennsla og III Innra mat. Viðmiðin eru byggð á lögum og reglugerðum um skólastarf og aðalnámskrá grunnskóla. Við mótun viðmiðanna voru áherslur og straumar í skólastefnum sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands einnig hafðir til hliðsjónar auk Sameiginlegrar framtíðarsýnar fyrir grunnskólastarfið 2007-2020. Litið var til viðmiða í ytra mati víða erlendis, s.s. frá Englandi, Skotlandi, Noregi, Svíþjóð, Þýskalandi og Kanada. Einnig var horft til viðmiða Reykjavíkurborgar í heildarmati á grunnskólum.
Viðmiðin voru fyrst notuð í tilraunaverkefni á vorönn 2012, en þá fór fram ytra mat í sex grunnskólum á landinu. Að verkefninu loknu voru viðmiðin og ferli matsins yfirfarin í ljósi þeirra ábendinga og athugasemda sem gerðar voru.
Meginstef ytra mats er að það sé leiðbeinandi og framfara- og umbótamiðað og stuðli að betri skóla. Leiðarljósið er ávallt nemandinn, réttur hans og þarfir.
(Byggt á skýrslunni: Ytra mat á grunnskólum – tilraunaverkefni. Heildarniðurstöður 2011/2012. Björk Ólafsdóttir)